Sækja um íbúð
Umsækjandi hjá Brynju leigufélagi þarf að uppfylla eftirfarandi skilyrði
Að vera 75% öryrki.
Falla undir tekju- og eignaviðmið í samræmi við úthlutunarreglur.
Vera í húsnæðisvanda. Almennt telst sá sem er án húsnæðis, býr inni á öðrum, leigir íbúð
umfram greiðslugetu eða er í óhentugu húsnæði vera í húsnæðisvanda. Eigi umsækjandi eða
maki hans íbúðarhúsnæði sem er í útleigu eða í annarri notkun en til eigin búsetu þá telst
hann almennt ekki vera í húsnæðisvanda, nema um sérstakar aðstæður sé að ræða
Hafa ekki sögu um alvarleg ofbeldisbrot, kynferðisbrot, auðgunarbrot eða fíkniefnabrot,
eða eiga við virkan vímuefnavanda að stríða sem hamlar því að viðkomandi geti búið í
almennu leiguhúsnæði á vegum Brynju.
Grundvöllur úthlutunarreglna
Til grundvallar úthlutunarreglum Brynju liggja m.a. eftirfarandi heimildir:
a) Samþykktir Brynju leigufélags ses., dagsettar 13. júní 2022.
b) Húsaleigulög nr. 36/1994.
c) Lög nr. 44/1998 um húsnæðismál.
d) Lög nr. 52/2016 um almennar íbúðir.
e) Reglugerð nr. 183/2020 um stofnframlög ríkis og sveitarfélaga, húsnæðissjálfseignarstofnanir og almennar íbúðir.
f) Reglugerð nr. 805/2020 um lánveitingar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar
til byggingar eða kaupa á leiguíbúðum.
g) Reglugerð nr. 1342/2020 um ráðstöfun leiguíbúða.
h) Ákvarðanir stjórnar og fulltrúaráðs Brynju.
Úthlutunarreglur Brynju má sjá hér.
Lög og reglugerðir eru uppfærðar reglulega og er vísað til gildandi útgáfu þeirra með breytingum.
Samþykktir geta breyst eftir staðfestingu meirihluta stjórnar og fulltrúaráðs.
Tekju- og eignaviðmið ársins 2024
Tekju- og eignaviðmið eru uppfærð árlega og eru þessi fyrir árið 2024:
Einstaklingur: 8.327.000 kr. á ári 693.917 kr. á mánuði
Hjón/sambúðarfólk: 11.659.000 kr. á ári 971.583 kr. á mánuði
Hvert barn undir 20 ára: 2.082.000 kr. á ári 173.500 kr. á mánuði
Eignaviðmið: 8.999.000 kr.
Aðilar sem eiga óuppgerðar skuldir við Brynju vegna fyrri leigusamninga koma almennt ekki til greina við úthlutun íbúða fyrr en þeir hafa gert upp skuldir sínar við félagið. Þegar umsækjandi hefur áður verið leigjandi hjá Brynju er horft til reynslu og greiðslusögu í því viðskiptasambandi.
Innheimta
Leiguverð er án hússjóðs og breytist mánaðarlega samkvæmt vísitölu neysluverðs til verðtryggingar.
Ekki eru sendir greiðsluseðlar nema þess sé óskað sérstaklega gegn gjaldi.
Leiga er fyrirframgreidd með gjalddaga og eindaga fyrsta virka dag hvers mánaðar. Dráttarvextir eru reiknaðir ef greitt er eftir eindaga.
Húsnæðisbætur, sérstakur húsnæðisstuðningur og heimilisuppbót
Húsnæðisbætur eru mánaðarlegar greiðslur sem eru ætlaðar til að aðstoða þá sem leigja íbúðarhúsnæði, hvort sem er í félagslega kerfinu, námsgörðum eða á hinum almenna leigumarkaði. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun annast framkvæmd laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur og tekur ákvarðanir um rétt til húsnæðisbóta.
Sérstakur húsnæðisstuðningur er fjárhagsleg aðstoð við fjölskyldur og einstaklinga á leigumarkaði sem þurfa sérstakan stuðning vegna greiðslu á húsaleigu umfram hefðbundnar húsnæðisbætur. Sækja þarf um stuðninginn hjá velferðar-/félagsþjónustu sveitarfélaganna.
Hjá Tryggingastofnun er hægt að sækja um heimilisuppbót að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.