Algengar spurningar
Hverjir geta sótt um hjá Brynju?
Þeir sem metnir eru hjá Tryggingastofnun með 75% örorku og uppfylla skilyrði um tekju- og eignarmörk.
Brynja mun ekki leigja þeim er hafa sögu um alvarleg ofbeldisbrot, kynferðisbrot, auðgunarbrot og fíkniefnabrot, né þeim sem eiga við virkan vímuefnavanda að stríða.
Til að sækja um húsnæði hjá Brynju þarf að fara inn á Mín Brynja
Þarf að endurnýja umsókn árlega?
Þeir umsækjendur sem eru á biðlista þurfa að staðfesta árlega hvort þeir vilji halda inni virkri umsókn fyrir næsta ár með því að greiða árlegt biðlistagjald sem nemur nú 3.000 kr.
Þarf ég að þinglýsa leigusamningnum mínum?
Ekki er lengur þörf á því að þinglýsa leigusamningum til að geta sótt um húsnæðisbætur. Brynja skráir alla leigusamninga í húsnæðisgrunn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og uppfyllir það skilyrði þess að leigjendur geti sótt um húsnæðisbætur.
Skilyrði húsnæðisbóta hjá HMS
Reiknivél húsnæðisbóta HMS
Hvar er hægt að sækja um húsnæðisbætur, sérstakar húsnæðisbætur og heimilisuppbót?
Húsnæðisbætur eru mánaðarlegar greiðslur sem er ætlað að aðstoða þá sem leigja íbúðarhúsnæði, hvort sem er í félagslega kerfinu, námsgörðum eða á hinum almenna leigumarkaði. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun annast framkvæmd laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur og tekur ákvarðanir um rétt til húsnæðisbóta.
Sérstakur húsnæðisstuðningur er fjárhagsleg aðstoð við fjölskyldur og einstaklinga á leigumarkaði sem þurfa sérstakan stuðning vegna greiðslu á húsaleigu umfram hefðbundnar húsnæðisbætur. Sækja þarf um stuðninginn hjá velferðar-/félagsþjónustu sveitarfélaganna.
Hjá Tryggingastofnun er hægt að sækja um heimilisuppbót að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
Hvenær og hvernig er hægt að sækja um milliflutning?
Leigjendur sem hafa verið í samfelldri leigu í 36 mánuði (3 ár) geta sótt um milliflutning. Miðað er við að fimmta hver íbúð sem til úthlutunar kemur sé notuð fyrir leigjendur sem óska eftir milliflutningi.
Skilyrði fyrir milliflutningi eru þau sömu og við úthlutun leiguíbúða, auk þess sem leigjandi þarf að vera með húsaleigu og húsgjöld í skilum við Brynju.
Ekki er tekið gjald fyrir milliflutning, en leigutaki greiðir húsaleigu fyrir gömlu íbúðina fram að skiladegi hennar og húsaleigu fyrir nýju íbúðina frá afhendingardegi.
Sótt er um milliflutning inn á Mín Brynja
Má vera með gæludýr í húsnæði Brynju?
Dýrahald er bannað í íbúðum Brynju og nær bannið einnig til heimsókna dýra.
Hvar á Brynja húsnæði?
Brynja á húsnæði víðsvegar um landið en mest á höfuðborgarsvæðinu.
Hægt er að sjá staðsetningar íbúða hér
Eru umgengnisreglur í húsnæði Brynju?
Öllum leigjendum Brynju ber að fara eftir umgengnisreglum Brynju, sjá hér.
Einnig ber öllum leigjendum að fara eftir húsreglum í því fjölbýlishúsi er þeir leigja í.
Ítrekuð brot á þessum reglum geta varðað riftun á leigusamningi á grundvelli 61. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994.
Hvað eru íbúðirnar stórar t.d fyrir einstaklinga/fjölskyldur?
Einstaklingíbúðir: Stærðir íbúða 32 m2–45 m2.
2ja herbergja íbúðir: Stærðir íbúða 42 m2–110 m2
3ja herbergja íbúðir: Stærðir íbúða frá 70 m2–120 m2
4ra-5 herbergja íbúðir: Stærðir íbúða frá 85 m2–150 m2
Sjá staðsetningu íbúða eftir stærðum hér
Hvað er uppsagnarfresturinn langur?
Brynja gerir ekki kröfu um að leigjendur uppfylli uppsagnarfrest skv. húsaleigulögum. Leigjandi getur skilað inn, um mánaðamót, lyklum að leiguhúsnæði og fjarstýringum, ef við á, til skrifstofu Brynju að Hátúni 10c og með því lýkur leigusambandi aðila.
Við lok leigutíma eiga leigjendur að afhenda húsnæðið þrifið. Við skil íbúðar fer fram útskoðun þar sem ástand íbúðarinnar er borið saman við innskoðun. Ef í ljós koma skemmdir umfram hefðbundið slit í samræmi við leigutíma skal það metið og krafa gerð á leigjanda í samræmi við það. Ef þrifum er ábótavant er gerður reikningur á leigjanda fyrir þrifum.
Hvernig óska ég eftir viðhaldi á íbúðinni minni?
Til að óska eftir viðhaldi þarf að fylla út beiðni um viðhald annað hvort á heimasíðunni eða inn á Mín Brynja.
Fer Brynja fram á leigutryggingu?
Leigjandi greiðir tryggingarfé fyrir réttum efndum á leigusamningi sem samsvarar eins mánaðar leigu við upphaf leigusambands.
Leigjandi hefur val um að greiða tryggingarféð í einu lagi við upphaf leigu en einnig býður Brynja upp á greiðsludreifingu án kostnaðar. Brynja varðveitir tryggingarféð og endurgreiðir leigutaka það við lok leigutíma, standi hann við réttar efndir leigusamningsins.
Tryggingin er fyrir réttum efndum á leigusamningnum, þ.e. fyrir leigugreiðslum og skaðabótum vegna tjóns á hinu leigða sem leigjandi ber ábyrgð á samkvæmt ákvæðum húsaleigulaga eða almennum reglum.
Hvaða þjónusta er í boði hjá Brynju?
Brynja leigufélag er leigusali og veitir ekki neina þjónustu umfram skyldur sínar er fram koma í húsaleigulögum nr. 36/1994.
Þarfnist leigjandi þjónustu þarf hann að sækja hana hjá sveitarfélögum eða öðrum aðilum eftir atvikum.