Fara í efni

Jónas Páll Jakobsson nýr framkvæmdastjóri Brynju leigufélags

Jónas Páll Jakobsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Brynju leigufélags frá og með 12. ágúst 2025. Brynja leigufélag er sjálfseignarstofnun sem hefur það hlutverk að eiga og reka íbúðarhúsnæði fyrir öryrkja. Félagið var stofnað árið 1966 og hefur alla tíð gegnt mikilvægu samfélagslegu hlutverki þegar kemur að öruggu húsnæði fyrir öryrkja. Í dag á Brynja yfir 1.000 íbúðir víðs vegar um landið og leggur áherslu á félagslega dreifingu, hóflegt leiguverð og áframhaldandi fjölgun íbúða fyrir öryrkja.

Síðastliðin fjögur ár hefur Jónas Páll starfað sem framkvæmdastjóri Örtækni ehf., systurfélags Brynju. Hann hefur víðtæka reynslu af fjármálum og rekstri fyrirtækja en áður starfaði hann í 15 ár hjá Arion banka og forverum hans við fjármögnun og þjónustu við fyrirtæki. Jónas Páll er með B.Sc.-próf í viðskiptafræði og MBA-gráðu frá Háskóla Íslands.

„Ég er fullur tilhlökkunar að ganga til liðs við Brynju leigufélag og fylgja eftir því góða starfi sem þar hefur verið unnið. Brynja þjónar viðkvæmasta hópi samfélagsins og hefur skýrt samfélagslegt hlutverk. Það er spennandi og skemmtilegt tækifæri að fá að vinna með fjölbreyttum hópi hagsmunaaðila og koma að uppbyggingu húsnæðis og þjónustu við leigjendur“, segir Jónas Páll.

Stjórnarformaður Brynju leigufélags, Halldór Sævar Guðbergsson, segir stjórn og starfsfólk Brynju ánægt með að fá Jónas Pál til liðs við félagið. „Hann þekkir vel til starfsemi Brynju og er farsæll stjórnandi með reynslu og þekkingu sem nýtast mun félaginu vel,“ segir Halldór Sævar.